Dýrin í Hálsaskógi

SG_-_014-_A-72pMarteinn er minnsta dýrið í Hálsaskógi, en þó hann sé lítill þá er hann bæði hygginn og gætinn. Hann safnar hnetum og könglum og hugsar fyrir morgundeginum.

En besti vinur Marteins, Lilli klifurmús er allt öðruvísi. Hann lifir fyrir líðandi stund, semur lög og syngur og spilar á gítarinn sinn.

Í Hálsaskógi eiga Bangsapabbi og Bangsamamma líka heima og einnig Bangsi litli. Þar má einnig finna Hérastubb bakara og Bakaradrenginn. Og einnig Ömmu skógarmús sem er amma Marteins, og þar á Patti broddgöltur líka heima og mörg fleiri dýr.

Sum dýrin eru góð, en önnur eru ekki góð og þeirra verst er refurinn. Hann læðist á milli runnanna og syngur refavísurnar sínar og hugsar um það eitt að borða þá sem eru minni en hann.

En það er ekki æskilegt að sífellt skuli vera ófriður í skóginum, og dag nokkurn fóru Lilli klifurmús og Marteinn skógarmús til Bangsapabba og kvörtuðu undan þessu. Bangsapabbi kallaði öll dýr skógarins saman til fundar þar sem þau fengu að heyra lög, sem Marteinn skógarmús las upp og þau voru þannig:

  1. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
  2. Ekkert dýr má borða annað dýr
  3. Sá, sem er latur og nennir ekki að afla sér matar, má ekki taka mat frá öðrum.

Texti af umslagi hljómplötunnar Dýrin í Hálsaskógi – SG hljómplötur

Það gerist margt skemmtilegt og spennandi í leikritinu Dýrin í Hálsaskógi, enda er það eitthvert allra vinsælasta barnaleikrit síðustu áratuga. En við ætlum ekkert að ljóstra upp um söguþráðinn hér.

Sagan um dýrin í Hálsaskógi kom fyrst fyrir eyru almennings í barnatímum í norska útvarpinu um miðja síðustu öld, en Egner kom að þessum barnatímum um árabil. Árið 1953 kom sagan fyrst út á prenti, myndskreitt af höfundi sjálfum. Egner gerði síðan leikrit úr sögunni sem sýnt var árið 1959 sem brúðuleikhús, og tónlistina gerði hann í samvinnu við norska tónskáldið Christian Hartmann.

Árið 1962 var leikritið tekið frumsýnt í Þjóðleikhúsinu og var það fysta sýning verksins í heiminum þar sem leikarar fóru með hlutverk. Árið 1966 var sýning Þjóðleikhússins hljóðrituð í Ríkisútvarpinu og gefin út af SG hljómplötum.

Góða skemmtun!

Heimildir:

SG hljómplötur – umslag (bakhlið)

Thorbjörn Egner á Wikipedia