Sjóræningjaprinsessan

Myndir og frétt á 640.is

Leikfélag Húsavíkur frumsýndi í gær Sjóræningjaprinsessuna í Samkomuhúsinu á Húsavík.
Svo skemmtilega vildi til að frumsýningin bar upp á 118 ára afmælisdag leikfélagsins.

Smelltu til að sjá fleiri myndir og umfjöllun

Allir upp á dekk í Samkomuhúsinu á Húsavík

Það sér í land. Hvar er fjársjóðurinn? Leikfélag Húsavíkur horfir á fjársjóðskortið en æfingar standa yfir á Sjóræningjaprinsessunni. Verkið fjallar um Soffíu sem elst upp á gistihúsinu Sporðlausu hafmeyjunni á friðsælli eyju í Suðurhöfum. Uppruni Soffíu á eyjunni er dularfullur og hún þráir að lenda í ævintýrum öfugt við Matta uppeldisbróður sinn. Soffía er fósturforeldrum sínum erfið en hún heldur því statt og stöðugt fram að hún sé sjóræningjaprinsessa.

Eitt óveðurskvöld skjóta tveir grunsamlegir náungar upp kollinum á Sporðlausu hafmeyjunni og fyrr en varir er Soffía komin út á rúmsjó með Matta og Grra, öðrum uppeldisbróður sínum og háskalegum sjóræningjum sem stefna til Milljónmaðkaeyju. Þar ráða mannætur ríkjum og tilvera Soffíu og vina hennar breytist hratt.

Í verkinu eru reyndir leikarar og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref. Sýningin er ekki síst fyrir börn enda talsvert um börn í sýningunni sjálfri. Þrátt fyrir að söguþráðurinn sé spennuþrunginn er verkið skemmtilegt og fullt af beinskeyttri kátínu. Höfundur verksins er Ármann Guðmundsson sem Þingeyingar þekkja. Guðmundur Svavarsson samdi tónlistina í verkinu ásamt Ármanni sem á sömuleiðis söngtextana auk Sævars Sigurgeirssonar. Á Sporðlausu hafmeyjunni er húsband sem leikur undir í söng og dansi. Leikstjóri verksins er hin góðkunna María Sigurðardóttir.

Æfingar standa nú sem hæst og Samkomuhúsið fullt af lífi. Fólk á öllum aldri að leika, smíða, sauma, gera og græja. Það er í mörg horn að líta þegar verk sem þetta er sett upp enda hefur Leikfélag Húsavíkur haft metnað til að setja upp vandaðar sýningar með veglegum hætti. Það sést í sjóræningjaskipið í hafnarkjaftinum í byrjun mars þegar verkið verður frumsýnt. Líttu ævintýrið eigin augum og komdu með í skemmtilegt ferðalag.

Meðfylgjandi myndir tók Hjálmar Bogi Hafliðason á æfingu.