Posted on

Kolbrún Ada nýr formaður LH

Aðalfundur Leikfélags Húsavíkur var haldinn í Framhaldsskólanum á Húsavík miðvikudaginn 26. október 2016 kl. 20:00. Fundargestir voru 20 talsins taldist fundurinn lögmætur. Fundarstjóri var Hjálmar Bogi Hafliðason en Dómhildur Antonsdóttir ritari. Einn nýliði gekk í leikfélagið á fundinum. Auður Jónasdóttir, fráfarandi formaður kynnti skýrslu stjórnar um starfsemina á liðnu leikári og Ása Gísladóttir gjaldkeri fór yfir fjármál félagsins. Hvort tveggja var samþykkt samhljóða.

Auður reifaði starfsemi næsta leikárs og fram kom að búið er að ráða Maríu Sigurðardóttur sem leikstjóra og stefnt er að því að æfingar hefjist 9. Janúar 2017. Leikstjóri og stjórn vinna nú að því í sameiningu að ákveða leikrit til sýningar.

Sem kunnugt er, var samþykkt á félagsfundi í janúar 2016 að taka kauptilboði sem borist hafði í Höfða 24C, aðstöðu leikfélagsins sem það á sameiginlega með sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að leikfélagið flytji búninga sína, leikmuni og verkstæði í nýja aðstöðu þegar hún verður tilbúin á þessu leikári. Samþykkt var að boða til félagsfundar þegar staða húsnæðismála skýrist frekar.

Kosningar hófust með formannskjöri þar sem Auður Jónasdóttir gaf ekki kost á sér áfram. Kolbrún Ada Gunnarsdóttir gaf kost á sér og hlaut hún atvkæði allra viðstaddra. Aðrir í stjórn eru Ása Gísladóttir og Berglind Ósk Ingólfsdóttir sem gáfu kost á sér áfram og voru kjörnar til tveggja ára, Ari Páll Pálsson sem kosinn var í fyrra til tveggja ára og Heiðar Smári Þorvaldsson sem kosin var til eins árs. Í varastjórn eru Unnur Erlingsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Helga Sveinbjörnsdóttir. Skoðunarmenn reikninga eru Regína Sigurðardóttir og, til vara, Hallgrímur Valdimarsson.

Nýkjörinn formaður, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir þakkaði fyrir kosningu til formanns og þakkaði jafnframt Auði fyrir sitt framlag sem formaður. Ása Gísladóttir, fyrir hönd stjórnar, þakkaði Auði einnig fyrir óeigingjarnt starf og framtakssemi sem formaður.

Fundi lauk með því að Auður þakkaði fyrir sig og samstarfið og fundi var slitið.