Posted on

Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Leikfélags Húsavíkur var haldinn í samkomuhúsinu 19. október 2017 með hefðbundinni dagsrká. Fundarstjóri var Þorkell Björnsson en Regína Sigurðardóttir ritaði fundargerð. Fyrsti liður að loknum formsatriðum var inntaka nýrra félaga og að þessu sinni voru teknir inn sjö nýir félagar og þeim fagnað með lófataki.
Formaður, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir gerði því næst grein fyrir störfum stjórnar frá síðasta aðalfundi. Sagði hún leikárið hafa verið viðburðaríkt, lærdómsríkt og skemmtilegt. Sem kunnugt er hafði María Sigurðardóttir verið ráðin sem leikstjóri og leikritið sem varð fyrir valinu var breski farsinn Bót og betrun eftir Michael Cooney. Vel gekk að fá fólk til starfa á sviði sem utan þess. Gott og metnaðarfullt starf allra sem að komu skilaði sér í frábæri uppsetningu sem sýnd var 18 sinnum fyrir alls 1486 gesti.
Samkomuhúsið var að venju í töluverðri notkun. Pýramus og Þispa voru með sýningu í nóvember og 10. bekkur Borgarhólsskóla í desember en LH var svo að störfum frá janúar og fram í maí. Í júní var þar listahátíðin Skjálfandi og því næst voru þar Hjörvar Gunnarsson ásamt Miðjunni sem settu upp listasýningu á Mærudögum. Í september var sviðsmyndin tekin niður og í október hélt Guðni Braga tónleika með efni af vísnaplötunum og Þjóðleikhúsið bauð grunnskólanemendum á sýninguna Oddur og Siggi. Samhliða þessu var nokkru viðhaldi sinnt
Höfðinn hefur ekkert verið í notkun, en þar er búið að fara rækilega í gegn um dót, flokka, henda og pakka fyrir flutning í nýja aðstöðu í suðurfjöru.
Formaður ræddi því næst um leikárið framundan (sem nánar verður greint frá í næstu frétt) en því næst fór gjaldkeri, Ari Páll Pálsson yfir ársreikning starfsársins. Skýrsla og reikningar voru samþykkt án athugasemda að lokinni umræðu.
Kosningar voru næstar á dagskrá. Kolbrún Ada Gunnarsdóttir gaf kost á sér áfram og var samþykkt með lófaklappi. Þær breytingar urðu á stjórn að Heiðar Smári Þorvaldsson vék úr stjórn en Guðrún Einarsdóttir kom ný inn. Í stjórn sitja nú, auk Kolbrúnar og Guðrúnar, þau Ása Gísladóttir, Berglind Ingólfsdóttir og Ari Páll Pálsson. Í varastjórn eru Helga Sveinbörnsdóttir, Unnur Erlingsdóttir og Guðrún Jónsdóttir.

Það styttist í að flytja þurfi dót af Höbbðanum í nýju aðstöðuna í Suðurfjöru. Þá verður öll hjálp vel þegin.