Posted on

Ástin vekur athygli

Óhætt er að segja að Söngleikurinn Ást sé farinn að vekja mikla athygli, þó svo að sýningar séu enn ekki hafnar.  Fjallað hefur verið um  söngleikinn í fjölmörgum miðlum, bæði í netheimum og á prenti.

Nýjustu umfjöllunina er að finna á fréttavefnum www.siglo.is en áður höfðu fréttir birst á  www.640.is og www.641.is.  Einnig hefur verið fjallað um söngleikinn í prentmiðlum og á dögunum birtist m.a. grein um Ástina og Húsavík í tímaritinu Iceland review

Það er fleira en bara leikritið sjálft sem hefur vakið athygli.  Síðastliðinn föstudag tóku Jakob S. Jónsson leikstjóri og Þorkell Björnsson einn af aðalleikurum sýningarinnar þátt í Málþingi um íslenska tungu í Framhaldsskólanum á Laugumog fjölluðu þar um þá ákvörðun leikhópsins að þýða alla söngtexta á íslensku.  Greindi Þorkell frá því að það væri bæði rétt og sjálfsagt að bjóða íslenskum áhorfendum leiksýningu á sínu móðurmáli, enda væri íslenskan þannig tungumál, að hún ætti orð yfir hvaða hugsun og fyrirbæri sem vera skyldi.  Jakob talaði um samhengi texta og útskýrði, að við þýðingu á erlendum textum söngleiksins hefði verið unnt að tengja þá enn betur við efni sýningarinnar og hefði það skáldaleyfi verið notað.