Posted on

Ástin birtist í kvöld

Eftir þrotlausar æfingar undanfarnar vikur frumsýnir Leikfélag Húsavíkur Söngleikinn Ást eftir þá Vesturportsfélaga Gísla Örn Garðarsson og Víking Kristjánsson í kvöld í samkomuhúsinu á Húsavík.  Um tuttugu leikarar stíga á svið ásamt þriggja manna hljómsveit en fjöldi þekktra íslenskra og erlendra sönglaga fléttast inn í atburðarás verksins.  Hafa erlendu lögin- eftir höfunda á borð við Lennon, McCartney, Lou Reed o.fl.- verið íslenskuð sérstaklega fyrir þessa uppfærslu.

Söngleikurinn ást er íslensk saga, fjörleg og skemmtileg, en með alvarlegum undirtón.  Víst er að áhorfendur muni kannast við sögupersónurnar, sem allar eru sóttar í íslenskan veruleika.

Nína birtist einn daginn á elliheimilinu og ætlar sér ekki að vera þar nema skamma stund- en svo hittir hún Grjóna og ástin fyllir líf þeirra- en það eru víst ekki allir ánægðir með það!

Með Söngleiknum Ást vill Leikfélag Húsavíkur í samvinnu við fyrirtæki í bænum og Húsavíkurstofu gera Húsavík að höfuðborg ástarinnar.

Myndir frá æfingum á Söngleiknum Ást