Posted on

Vel heppnuð frumsýning

Síðastliðinn föstudag, 24. nóvember, var Söngleikurinn Ást frumsýndur í Samkomuhúsinu á Húsavík. Er óhætt að segja að Húsvíkingar hafi beðið frumsýningarinnar með óþreyju, en skiltið utan á Samkomuhúsinu með nafni sýningarinnar var sett þar upp í kringum Mærudaga og þá þegar vaknaði forvitni bæjarbúa. Svo kom að frumsýningu og er óhætt að segja að sýningin hafi hlotið fádæma góðar undirtektir frumsýningargesta. Fögnuðu þeir leikurum og aðstandendum sýningarinnar vel og lengi og mátti heyra á mörgum á leið út eftir sýningu að hér hefðu gefist mörg tækifæri til ósvikinnar skemmtunar þótt undirtóninn sé líka alvarlegur.

Þessi sýning er bæði djúp og full af ást, var álit ungs áhorfenda, sem sagði að þessi sýning um ást á elliheimili ætti erindi til allra.

Um tuttugu leikarar stíga á svið auk þriggja manna hljómsveitar. Var einnig almenn ánægja með tónlistina en hún samanstendur af þekktum lögum, íslenskum og enskum, en ensku textarnir voru þýddir sérstaklega fyrir sýningu Leikfélags Húsavíkur. Þetta mun auk þess vera í fyrsta sinn, sem áhugaleikfélag á íslandi tekur sýningu úr smiðju Vesturports upp á sína arma.

Leikstjóri Söngleiksins Ástar er Jakob S. Jónsson og tónlistarstjóri er Knútur Emil Jónasson.

Með Söngleiknum Ást vill Leikfélag Húsavíkur í samvinnu við fyrirtæki í bænum og Húsavíkurstofu gera Húsavík að höfuðborg ástarinnar og gefur félagið kost á leikhúsferðum af öllu Norður- og Austurlandi í samvinnu við Fjallasýn ehf., Veitingahúsið Sölku, Fosshótel Húsavík, Hótel Húsavíkurhöfða og flugfélagið Ernir.

Söngleikurinn Ást verður sýndur fram í desember og verða sýningar teknar upp aftur milli jóla og nýárs og verður sýnt fram í janúar. Vissara er að tryggja sér miða í tíma, en fjöldi sýninga fer eftir aðsókn.

Svo skemmtilega vildi til, að Sigurður Hallmarsson, sem löngu er orðinn landsþekktur er fyrir starf sitt með Leikfélagi Húsavíkur, leik í kvikmyndum og myndlist, átti afmæli sama dag og söngleikurinn Ást var frumsýndur. Hér er hann mættur ásamt Dómhildi Antonsdóttur, sem einnig starfar með Leikfélaginu og hefur m.a. séð um búningana í Ást. Sigurður var snöggur að segja skoðun sína á Söngleiknum Ást: „Fín sýning, virkilega gaman, vel gert!“